Frábær helgi og fín líðan

Halló öllsömul.

Þá er sumarið að verða liðið og ég hef ekkert skrifað hér síðan í vor. En í dag langar mig að setja inn smá færslu, mun jákvæðari en þá síðustu, sem var frekar niðurdrepandi. Nú er að byrja ný önn í skólanum og ég hlakka til hennar þó að það verði nóg að gera: kenni tvö námskeið, annað þeirra nýtt, og sit sjálf á einu námskeiði í kennslufræði háskóla.

Sjálf hef ég, eins og hefur komið fram á Facebook, verið að taka sjálfa mig aðeins i gegn varðandi mataræði og hreyfingu. Og ég verð að segja að mér líður miklu betur en í vor :). Ég forðast brauð og viðbættan sykur og hreyfi mig á hverjum degi, en það eru samt engin boð og bönn heldur; þar af leiðandi fékk ég mér góðar kökur í fimmtugsafmæli Hönnu mágkonu á síðustu helgi – sjá veisluborðið hér:

IMG_6924

Girnó!

Annars er þessi helgi búin að vera alveg hreint ljómandi fín. Fyrir hádegið í gær fór ég með Davíð Inga á Gróttudaginn, þar sem hann spilaði fótbolta með öðrum iðkendum við gestalið. Hér er flotti fótboltastrákurinn minn til í slaginn:

IMG_6931

Á meðan ég var að bíða eftir að fótboltinn byrjaði fór ég í göngutúr og ákvað svo að prófa að fá mér kaffi hjá Systrasamlaginu, sem er rétt hjá sundlauginni. Kaffið var sérlega gott og líka gaman að spjalla um hollan mat og millimál við konuna sem afgreiddi mig :) . Ég fletti í uppskriftabók eftir Gwyneth Paltrow meðan ég drakk lattéinn og hafði gaman af.

Við fórum svo í sund í Mosó eftir hádegið og keyrðum að því búnu upp á Akranes til pabba; borðuðum hjá honum hamborgara í kvöldmatinn með bestu lyst. Eftir matinn var heilög stund yfir Merlín (Davíð Ingi er sjúkur í þættina) og svo lögðum við af stað heim en með smá stoppi hjá Samma bró og Önnu mágkonu – sem ég færði síðbúna afmælisgjöf (hún varð fimmtug í júní). Þar var auðvitað skellt kræsingum á borð fyrir okkur og ég þáði þetta fína ZinZino kaffi :). Við sátum þar dágóða stund við spjall og kósíheit og Jóhanna – sem hafði vaknað kortér í sjö í gærmorgun – sofnaði á stólnum við hliðina á mér, liggjandi með höfuðið á lærinu á mér. Hún var alveg uppgefin greyið. Við vorum svo ekki komin heim fyrr en að ganga tólf, og börnin voru að sjálfsögðu drifin beint í rúmið.

Í morgun fékk ég að sofa út (það er, leggja mig aftur eftir að Jóhanna vakti okkur með geðvonsku og látum – það er ekkert grín hvernig hún er í skapinu stundum) og eftir rólegheit hér heima fór ég í langan göngutúr í hellirigningu. Var orðin ansi blaut þegar heim var komið en það var bara hressandi! Jóhanna var með fjórar vinkonur í heimsókn og var mikið fjör hjá þeim, en Davíð fór til vina sinna. Ég gerði ýmiskonar góðgæti með kaffinu í dag, góðgæti sem er samt ekki slæmt fyrir samviskuna. Gróft speltbrauð og kornflekskaka í hollari kantinum vöktu lukku hjá Jóhönnu og vinkonum hennar (sem voru orðnar tvær þegar þarna var komið) og allir voru hæstánægðir með veitingarnar:

IMG_6938

IMG_6940Nammi! Og það sem er best – ekkert samviskubit :) !

Annað sem er í fréttum er að Jóhanna er búin að fá nýtt rúm sem við gátum gengið endanlega frá nú um helgina. Hún er að sjálfsögðu himinsæl með það – lág koja með græjum til að búa til hús undir, og er hér hin glaðasta við nýja svefnstaðinn:

IMG_6935

Sjáið hvað það er allt í röð og reglu þarna. Það er ekki hægt að segja að svo hafi verið eftir leikinn við vinkonurnar. Ég skipaði þeim að hjálpast að við að taka til áður en stelpurnar fóru. Lausnin var einföld í þeirra huga: setja allt draslið undir rúmið á bak við tjöldin sem þarna sjást! Out of sight, out of mind. Nema að mamma gamla var ekki mjög hrifin þegar kíkt var bak við ;).

Nú er komið kvöld (þó ég hafi byrjað á þessari færslu seinni partinn) og ég þarf að fara að vinna aðeins að kennsluundirbúningi. Kenni á morgun fyrsta tímann í framhaldsnámskeiði um Túdor fjölskylduna eins og henni eru gerð skil í 21. aldar kvikmyndum, sjónvarpsþáttum og skáldsögum. Spennandi.

Enda þessa færslu á mynd af kvöldmatnum áður en hann fór í ofninn, eða kjúklingi og með’onum, allt í einu fati. Hafiði annars tekið eftir því hvað þetta blogg fjallar mikið um mat? En það er – að mestu leyti – um mat sem er góður fyrir mann, nota bene. Mér finnst ég vera endurfædd af þessum nýju áherslum í mataræði, þannig að það er örugglega satt sem sagt er, að rétti maturinn er lykill að góðri heilsu og andlegu jafnvægi.

IMG_6941

Bið að heilsa í bili og vonandi skrifa ég eitthvað hér fljótlega aftur.

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

You may use these HTML tags and attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <strike> <strong>