Síðasta skiptið

Við vorum búnar að labba saman um ganginn; ég leiddi þig og þú gekkst hægum, stuttum, þróttlitlum skrefum. Ég talaði og þú sagðir stundum já. Þú varst ennþá nokkuð hnarreist, horfðir fram. Það var eins og röddin mín og orðin mín bergmáluðu til baka í þessu jái. Augnaráðið þitt tómt, dauflegt, án lífsins og gleðinnar sem var þar einu sinni alltaf. Mig langaði svo að segja þér af öllu sem var að brjótast um í mér, af hversdagsvandamálunum, sigrum og ósigrum í vinnunni og heima, stressi og barnastússi, fá ráðleggingar og hlutdeild til baka, eins og alltaf áður en óminnisvofan kom, þegar þú varst mín stoð og stytta og við töluðum saman löngum stundum í símann.

Við settumst í hornið við gluggann, hún Jóhanna hjá þér og ég á móti ykkur. Jóhanna strauk þér og kyssti, eins og þér fannst svo gott. Börnin náðu best til þín af öllum þegar leið að lokum.

Ég setti á tónlist; falleg lög hljómuðu, eitt þeirra dró fram ofurlítið bros. Þú kunnir enn fullt af lögum; voru þau neðst í geymslu hugans, þar sem gráa þokukennda höndin náði ekki til? Við sátum og horfðum á hvora aðra; þá sagðirðu það, nafnið mitt, í fyrsta skipti í langan tíma. Í gegnum tónlistina heyrði ég það: “þetta er gott sæti fyrir þig Ingibjörg.”  Ég brosti til þín, reyndi með því og augnaráðinu að koma öllu því til skila sem ég gat ekki sagt. Og þú ljómaðir; við sátum og horfðum hvor á aðra, skælbrosandi framan í hvora aðra, og augun þín ljómuðu, það var ljós í þeim, sól í brosinu þínu, þú varst aftur orðin sú mamma mín sem vissi nákvæmlega hver ég var og hvert okkar samband var. Brosið þitt var svo bjart og fullt af elsku, gleði og væntumþykju. Vofan gráa hafði vikið um stund, huluna hafði dregið frá.

Þetta var í síðasta skiptið sem þú sagðir nafnið mitt. Síðasta skiptið sem ég sá þig horfa fram fyrir þig, og beint í augun á mér, áður en þú misstir höfuðið niður, horfðir alltaf niður. Þetta var síðasta skiptið sem þú vissir fullkomlega hver ég var og hvernig við tengdumst, síðasta skiptið sem ég sá sólina í brosinu þínu, ljómann í augunum þínum. Aldrei aftur sá ég óminnisvofuna með sínar miskunnarlausu, köldu hendur, sleppa takinu á þér, örstutta stund, já aðeins augnablik.

Þetta var í síðasta skiptið.

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

You may use these HTML tags and attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <strike> <strong>